Vinsamlegast kynnið ykkur nýjustu fréttir vegna COVID-19 veirunnar – fréttirnar eru uppfærðar reglulega. Fara á vef Landlæknisembættisins
 

Hjarta-, æða- og lungnaendurhæfing

Meðferðin hentar einstaklingum sem greinst hafa með hjartasjúkdóma eða áhættuþætti þeirra. Hún hentar einstaklingum með kransæðaþrengsli eða önnur æðaþrengsli og þeim sem gengist hafa undir hjarta- eða kransæðaaðgerðir. Meðferðin hentar einnig einstaklingum með lungnasjúkdóma.

Markmið meðferðar?
Markmiðið er að auka líkamlegt þrek og færni, hindra framgang sjúkdóms, bæta svefn og næringarástand, draga úr streitu eða stjórna henni, draga úr háþrýstingi, lækka blóðfitur og hætta reykingum ef við á.

Þjálfun
Þjálfunaráætlun er sniðin að getu og þörfum hvers og eins, en þá er gjarnan stuðst við niðurstöður áreynsluprófs. Læknir metur hvort þörf er á slíku prófi. Þátttakendur stunda m.a. þrek- og styrktarþjálfun í vel búnum tækjasal, þolgöngu utandyra, leikfimi, vatnsleikfimi og slökun. Öll þjálfun er undir eftirliti sjúkraþjálfara eða íþróttakennara og fylgst er með blóðþrýstingi, hjartsláttartíðni og súrefnismettun eftir þörfum á meðan þjálfað er í tækjasal.

Önnur meðferð
Fagteymi metur þörf fyrir frekari einstaklingsmeðferð. Í boði er meðferð sálfræðinga, næringarfræðings og stuðningur við reykleysi svo dæmi séu tekin.

Fræðsla
Öllum gestum stendur til boða margþætt fræðsla. Einstaklingar sem tilheyra hjartalínu eru sérstaklega hvattir til að mæta í eftirtalda fyrirlestra: Hjartasjúkdómar, áhættuþættir og lífshættir, hollt mataræði, svefn, streita, gildi þjálfunar, heilbrigt líf - alltaf og forgangsröðun og skipulag. Í síðustu viku dvalar býðst svo aðstoð við að skipuleggja áframhaldandi heilsuáætlun til að viðhalda árangri dvalarinnar.

Hver er lengd meðferðar?
Lengd meðferðar er að öllu jöfnu fjórar vikur. 

Hverjir koma að meðferðinni? 
Hópur fagfólks vinnur saman að framkvæmd allrar meðferðar á hjartalínu í náinni samvinnu við þátttakandann. Þetta eru læknir, hjúkrunarfræðingur, sjúkraþjálfari, íþróttakennari og sjúkranuddari.

 

Við fáum reglulega reynslusögur frá gestum okkar og hér getur þú séð hvað þeir segja um dvöl sína á Heilsustofnun.

Skoða ummæli