Geðendurhæfing

Meðferð í geðendurhæfingu hentar einstaklingum með þunglyndi eða kvíða, einnig þá  einstaklinga sem glíma við lífskreppur eftir áföll svo sem skilnað, sjúkdóma, atvinnu-eða ástvinamissi eða fjölskylduvandamál. Meðferðin gæti einnig hentað þeim sem þurfa aðstoð sem brú milli spítaladvalar og heimferðar.

Geðendurhæfing á Heilsustofnun leggur mikla áherslu á heilbrigðan lífsstíl, með hollu og góðu fæði. Áhersla er lögð á líkamlega þjálfun og hreyfingu sem sniðin er að getu og þörfum hvers og eins. Auk líkamlegrar þjálfunar er hlúð að andlegri líðan með fræðslu, hópmeðferð og einstaklingsviðtölum.

 Hvert er markmið meðferðarinnar?

Markmiðið er að einstaklingar verði færari um að takast á við daglegt líf bæði í atvinnulegu og félagslegu tilliti.

Hópmeðferð

Á Heilsustofnun hefur metnaður verið lagður í hina svokölluðu þriðju bylgju í meðferðarvinnu, þ.e. áhersla á að skilja hvernig hugur okkar starfar og hvernig við getum haft áhrif á hugsun og tilfinningar. Áhersla hefur verið lögð á núvitund sem stendur öllum dvalargestum opin og einnig námskeið fyrir litla hópa, þar sem farið er dýpra og reynt að skilja betur hvernig við erum saman sett og hvernig við bregðumst við. Sjá nánar um Núvitund á Heilsustofnun  

Fræðsla

Á Heilsustofnun er margþætt fræðsla í boði fyrir gesti. Í hverri viku eru fyrirlestrar um efni t.d. þunglyndi, kvíði, sjálfsmynd, meðvirkni, svefntruflanir og streitunámskeið eru haldin reglulega.  Einstaklingar eru auk þess hvattir til að mæta á aðra fyrirlestra.

Viðtöl 

Möguleiki er á stökum einstaklingsviðtölum hjá sálfræðingi eða geðhjúkrunarfræðingi þar sem unnið er út frá hugrænni atferlismeðferð, núvitundarmiðaðri meðferð (Mindfulness Based Cognitive Therapy), áhugahvetjandi samtalstækni (Motivational Interviewing) sem og öðrum meðferðarleiðum. 

Hver er lengd meðferðar?

Lengd meðferðar er að öllu jöfnu fjórar vikur. 

Hverjir koma að meðferð?

Á Heilsustofnun er starfandi þverfaglegt geðteymi sem í er læknir, sálfræðingur, geðhjúkrunarfræðingur, sjúkraþjálfari, sjúkranuddari, hjúkrunarfræðingur og íþróttakennari sem vinna í góðri samvinnu við gesti.​

 

Við fáum reglulega reynslusögur frá gestum okkar og hér getur þú séð hvað þeir segja um dvöl sína á Heilsustofnun.

Skoða ummæli