Bæklunarendurhæfing
Endurhæfingin hentar einstaklingum í kjölfar slyss og/eða aðgerða á stoðkerfi. Hún hentar þeim sem hafa skerta færni í daglegum athöfnum, hindranir á þátttöku í samfélaginu og/eða áhrif á lífsgæði. Endurhæfingin byggir á gagnreyndum aðferðum og hentar þeim sem þurfa þverfræðilega einstaklingsmiðaða nálgun. Í henni felst fjölbreytt hreyfing, ýmsar útgáfur af slökun og hugleiðslu sem og fræðsla um hollar neysluvenjur og heilbrigðan lífsstíl.
Hvert er markmið meðferðarinnar?
Markmið endurhæfingarinnar er að bæta líkamlega, andlega og félagslega færni. Þannig er hægt að auka hæfni til að lifa sem eðlilegustu lífi og auka lífsgæði.
Þjálfun
Þjálfun er sniðin að þörfum hvers og eins, að mestu í hóptímum en getur verið á einstaklingsgrunni. Flestir stunda leikfimi í vatni og á þurru, fara í skipulagðar gönguferðir og taka þátt í hóptímum sem stuðla að bættri líkamsvitund og -beitingu. Líkamsþjálfun er mikilvægur hluti endurhæfingar.
Slökun/hugleiðsla
Á Heilsustofnun eru ýmsar leiðir notaðar til að framkalla slökunaráhrif og að ná stjórn á eigin viðbrögðum við álagi. Fólk getur lært og tekið þátt í núvitund (e. mindfulness) tekið þátt í stýrðri slökun í hóptímum og/eða í gegnum hátalarakerfi á herbergjum. Einnig eru ýmis form hugleiðslu og/eða slökunar notuð í hreyfitímum.
Önnur meðferð
Einstaklingsmeðferð er metin hverju sinni út frá þeim skerðingum og hindrunum sem til staðar eru. Það getur verið meðferð vegna verkja, stirðleika og truflunar á vöðva og taugakerfi. Einnig getur meðferð falist í stuðningi vegna sálrænna og/eða félagslegra þátta.
Fræðsla
Á Heilsustofnun er lögð áhersla á margþætta fræðslu. Þar á meðal er fræðsla um eðli sjúkdóma og þætti sem geta bætt líðan og aukið færni. Í bæklunarendurhæfingu er sérstök áhersla lögð á fyrirlestra um færni og heilsu ásamt fræðslu um hollt mataræði, markmiðasetningu, slökun og núvitund.
Hver er lengd meðferðar?
Lengd meðferðar er að öllu jöfnu fjórar vikur.
Árangur
Árangurstengdar mælingar eru framkvæmdar í byrjun og lok dvalar í samræmi við heilsufarsástand hvers og eins.
Hverjir koma að meðferð ?
Á Heilsustofnun er starfandi þverfaglegt teymi sem starfar af heilindum að bættri heilsu í góðri samvinnu við dvalargest og í samræmi við þarfir hverju sinni. Í teyminu starfa hjúkrunarfræðingur, íþróttafræðingur, læknir, sálfræðingur, sjúkraliði og sjúkraþjálfari. Aðrir fagaðilar geta einnig komið að meðferðr.