Verkjameðferð

Meðferðin hentar einstaklingum á vinnufærum aldri með langvarandi stoðkerfisverki, þar á meðal vefjagigt. Hún hentar fólki sem enn er á vinnumarkaði en einnig þeim sem eiga í erfiðleikum með að halda starfsþreki eða jafnvel hafa þurft að hætta á vinnumarkaði.
Unnið er annars vegar í verkjahóp og hins vegar á verkjalínu.

Meðferð í verkjahóp er góður kostur fyrir stóran hóp fólks með langvinna verki. Meðferð á verkjalínu er fyrst og fremst ætluð fólki með langvinna verki sem getur af einhverjum ástæðum ekki nýtt sér meðferð í verkjahópnum. Einnig fer fólk sem kemur aftur á stofnunina eftir að hafa verið í verkjahóp inn á verkjalínu og fær þá framhaldsmeðferð. Meðferð á verkjalínu getur hentað fólki sem hefur nýlega gengist undir aðgerð vegna stoðkerfisvandamála svo sem vegna brjóskloss. Þó þarf að vera liðinn sá tími sem nauðsynlegur er fyrir gróanda, oftast um 4-6 vikur frá aðgerð.

Hvert er markmið meðferðarinnar?
Markmiðið er að einstaklingurinn auki færni í sínum daglegu athöfnum og öðlist getu til að taka virkari þátt í samfélaginu. Að hann auki lífsgæði sín með því að öðlast hæfni í eigin bjargráðum, læri að virða mörk sín og öðlist færni í að finna jafnvægi milli hreyfingar og hvíldar. Unnið er að því að hver einstaklingur efli líkamsvitund sína, bæti beitingu líkamans og auki líkamlegan þrótt. Að hann vinni á virkan hátt að bættri andlegri líðan, bæti svefn, læri streitustjórnun, öðlist getu til að stjórna ástandi sínu og bæti úthald í daglegu lífi. Þátttakandi á svo í lok meðferðar að leggja drög að framhaldinu með aðstoð fagfólks og marka upphafið að breyttum lífsstíl.

Þjálfun
Áhersla er lögð á hópefli, fræðslu, þjálfun, hvíld og hugleiðslu. Einstaklingurinn er hvattur til að læra að nota hugleiðslu og líkamsvitundaraðferðir til að takast á við andleg og líkamleg einkenni sem tengjast langvinnum verkjum. Grunnur er lagður að sjálfshjálp og ráðleggingar veittar um framhaldið. Á meðferðarskrá verkjahóps er margs konar hópþjálfun, fræðsla, slökun og hugleiðsla. Lögð er áhersla á að einstaklingurinn læri að nota hugleiðslu til að takast á við andleg einkenni í tengslum við langvinna verki.

Aðferðin sem notuð er kallast gjörhygli (e. mindfulness meditation). Líkamsvitund er notuð til að þjálfa einstaklinginn í að greina á milli æskilegrar og óæskilegrar líkamsstöðu og hreyfinga. Þannig aukast gæði hreyfinga í daglegu lífi og fólk lærir að beita sér meðvitað. Líkamsvitund og gjörhygli tengjast á ýmsan hátt þar sem verið er að vinna með upplifun einstaklingsins andlega og líkamlega. Í annarri hópameðferð svo sem göngu, leikfimi og vatnsleikfimi er vitund einstaklingsins virkjuð áfram og hann hvattur til að yfirfæra nýja færni á sitt daglega líf. Til að meðferðin skili langtímaárangri þarf hver og einn að vinna sjálfur að bættri líðan með ofangreindum aðferðum.

Eitt lykilatriðið í að læra inn á eigin mörk og bjargráð er að virkja sjálfan sig. Þess vegna er ekki veitt meðferðarnudd, nálastungur eða sprautumeðferð í verkjahóp. Einstaklingsmeðferð er í formi greiningar, skoðunar, ráðgjafar og stuðnings. Á meðferðarskrá verkjalínu er hópþjálfun, fræðsla, hvíld og slökun en einstaklingsmeðferð er metin af teyminu hverju sinni.

Önnur meðferð
Þátttakandi á verkjalínu getur fengið stuðning til reykleysis, stuðningsviðtöl hjá sálfræðingi eða hjúkrunarfræðingi og viðtöl hjá næringarráðgjafa eftir því sem ástæða þykir til.

Fræðsla
Boðið er upp á fræðslu og umræðufundi er varða heilsu og færni þar sem tekin eru fyrir ýmis málefni sem brenna á flestum þeim sem þjáðst hafa af langvinnum verkjum. Í síðustu viku dvalar býðst svo aðstoð við að skipuleggja áframhaldandi heilsuáætlun til að viðhalda árangri dvalarinnar.

Hver er lengd meðferðar?
Lengd meðferðar er að öllu jöfnu fjórar vikur. Möguleiki er á endurkomu í tvær vikur.

Hverjir koma að meðferð?
Hópur fagfólks vinnur saman að framkvæmd verkjameðferðarinnar. Í teyminu starfa læknir, hjúkrunarfræðingur, sjúkraþjálfarar, íþróttakennari, sjúkraliði og sjúkranuddari. Einnig hefur teymið aðgang að sálfræðingum og næringarráðgjafa eftir þörfum. Áhersla er lögð á góða samvinnu þátttakenda og fagaðila að því að undirbúa breytingar á lífsstíl sem nauðsynlegar eru í daglegu lífi til að ná árangri.