Offitumeðferð

Meðferðin hentar þeim sem vilja öðlast betri heilsu og líðan og eru tilbúnir til að breyta lífsháttum sínum til langframa. Hún hentar þeim sem glíma við offitu og/eða fylgikvilla s.s. sykursýki.

Hvert er markmið meðferðarinnar?

Markmiðið er heilsuefling. Að efla andlega, líkamlega og félagslega heilsu og auka lífsgæði. Mikilvægt er að þátttakendur tileinki sér hollt og fjölbreytt mataræði, reglulegar máltíðir og hæfilegar skammtastærðir og að þeir geri hreyfingu að hluta af daglegu lífi, velji sér þá tegund hreyfingar sem best hentar og geti notið þess að stunda hana.

Næringarráðgjöf
Viðtöl eru veitt hjá næringarráðgjafa eftir því sem ástæða þykir til. Næringarráðgjafi notast við áhugahvetjandi samtal („motivational interviewing“) til þess að stuðla að heilsueflingu hjá þáttakendum.
Til þess að skapa góðar venjur og samband við mat er núvitund á matmálstímum kennd, greining og leiðbeiningar með matarfíkn og lífsstílmeðferð við sykursýki og fylgikvillum.

Þjálfun
Einstaklingsmiðuð þjálfun er hluti af meðferðinni og sett er upp áætlun um hreyfingu á meðan á dvöl stendur. Hópmeðferð getur m.a. falist í göngu úti í náttúrunni, vatnsleikfimi, þjálfun í tækjasal og leikfimi.

Önnur meðferð
Áhersla er lögð á að efla andlega heilsu þátttakenda, bæta svefn og draga úr streitu. Ýmis fræðsla þessu tengt er í boði, slökunar-og baðmeðferðir, streitunámskeið og viðtöl við sálfræðinga eða geðhjúkrunarfræðinga.

Fræðsla 
Gestir í offitumeðferð eru sérstaklega hvattir til að sækja eftirfarandi fyrirlestra:

  • Máttur matarins – Gildi þess að næra sig til heilsueflingar
  • Hvers vegna þyngjumst við? – Farið í ástæður offitu og leiðir til að halda sér í kjörþyngd
  • Mataræði og sykursýki- Hvernig hægt er að nota mataræði sem meðferð í sykursýki?
  • Svefn – Mikilvægi svefns í heilbrigði einstaklings
  • Gildi þjálfunar og hreyfingar
  • Heilbrigt líf alltaf
  • Markmiðasetning – Leiðir að því setja sér markmið í heilbrigðum lífsstíl

Hver er lengd meðferðar?
Lengd meðferðar er að öllu jöfnu fjórar vikur. 

Hverjir koma að meðferð? 
Á Heilsustofnun er starfandi þverfaglegt teymi sem í er læknir, hjúkrunarfræðingur, sálfræðingur, næringarrjáðgjafi, sjúkraþjálfari og íþróttakennari. Áhersla er lögð á góða samvinnu þátttakenda og fagaðila að því að undirbúa breytingar á lífsstíl sem nauðsynlegar eru í daglegu lífi til að ná árangri.

 

Læknisfræðilegar meðferðir

Við fáum reglulega reynslusögur frá gestum okkar og hér getur þú séð hvað þeir segja um dvöl sína á Heilsustofnun.

Skoða ummæli