Heilsustofnun í Hveragerði

Heilsustofnun NLFÍ er í Hveragerði, sem er lifandi og blómlegur bær, rétt austur af Reykjavík. Aksturinn frá Reykjavík að þessum friðsæla og fallega stað tekur aðeins um það bil 30 mínútur eftir þjóðvegi 1. 

Það sem gerir Hveragerði sérstakan bæ er nábýli hans við jarðhitann, því bærinn er byggður á hverasvæði og af því dregur hann nafn. Fáir bæir í heiminum geta státað af virku jarðhitasvæði í hjarta bæjarins, vellandi hverum, hvæsandi gufuaugum og á sumrin iðandi blómahafi.

Vegna jarðhitans hefur garðyrkja frá fyrstu tíð verið einn aðalatvinnuvegur Hvergerðinga, enda Hveragerði oft kallað blómabærinn. Ferðamenn hafa auk blóma og trjáplantna getað keypt nýtt og ferskt grænmeti á góðu verði. Á síðari árum hafa margir dvalið í Hveragerði sér til hvíldar og heilsubótar í lengri eða skemmri tíma. Bærinn er vel staðsettur, fjarri ys og þys höfuðborgarsvæðisins, en þó rétt innan seilingar.

Kort af Heilsustofnun