Framtíðaruppbygging á Heilsustofnun

Mikil uppbygging er framundan hjá Heilsustofnun sem miðar bæði að því að endurnýja og bæta aðstöðu Heilsustofnunar, koma starfsemi stofnunarinnar nær uppruna sínum og að hjálpa fólki að bera ábyrgð á eigin heilsu. Undirbúningur fyrir uppbyggingu er þegar hafinn og gert er ráð fyrir að uppbyggingu ljúki 2026. Áætluð uppbygging skiptist í fjóra meginliði:

  1. Bygging nýs íbúðahverfis
  2. Nýtt meðferðahús og endurbætur á húsnæði Heilsustofnunar
  3. Bygging nýs heilsudvalarstaðar
  4. Áframhaldandi þróun á heilsueflingu og fyrirbyggjandi starfsemi

Sjálfbærni verður höfð að leiðarljósi í verkefninu og endurspeglast það m.a. í umhverfisvottun bygginga og sjálfbærum lausnum. Áætlað er að fyrstu framkvæmdir hefjist fyrir lok árs 2021. 

health clinic overview

1. Uppbygging nýs íbúðahverfis við Lindarbrún

Nýtt íbúðahverfi verður hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Samfélagið mun byggja á áratuga reynslu Heilsustofnunar í heildrænum lækningum, sem og reynslu við uppbyggingu og þjónustu við núverandi íbúðabyggð við Lækjarbrún. Áætlanir gera ráð fyrir 84 íbúðum á suðurhluta lóðar Heilsustofnunar með íbúðastærðir á bilinu 80m2 til 140m2. Kaupum á íbúðum í samfélaginu mun fylgja einstakur þjónustupakki sem er til þess fallinn að hvetja fólk til að bera ábyrgð á eigin heilsu. Enn er verið að þróa þjónustuna sem mun innifela aðgang að aðstöðu Heilsustofnunar, hóptímum og fyrirlestrum ásamt árlegri heilsufarsskoðun og annarri sérfræðiþjónustu. Heilsárs gönguleiðir, samkomusalur og aðgengi að hollum og næringarríkum mat er hluti af þjónustunni sem m.a. er ætlað að auka félagslega virkni meðal íbúa. Samfélagið verður einnig steinsnar frá allri helstu þjónustu í Hveragerði og einungis í um 40 mín. akstursfjarlægð frá Reykjavík. Unnið er að skipulagsmálum í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld í Hveragerði.

Deiliskipulag fyrir samfélagið er nú í kynningu hjá Hveragerðisbæ (sjá nánar hér). Áætlað er að framkvæmdir hefjist fyrir lok árs 2021, með fyrirvara um samþykki deiliskipulags. Áhugasamir kaupendur geta átt von á frekari upplýsingum á heimasíðu Heilsustofnunar í haust. 

Skoða heimasíðu verkefnisins

 

nlfí suðursvæði2

 

2. Heilsustofnun

Byggt verður nýtt meðferðahús og húsnæði Heilsustofnunar verður endurnýjað. Gestaherbergjum við stofnunina verður einnig fjölgað um nærri 40%. Hönnun á nýja húsnæðinu mun sækja innblástur í ána Varmá sem líður meðfram svæðinu sem og mjúkar línur í landslaginu í kringum stofnunina. Framkvæmdir verða í áföngum til að lágmarka áhrif á starfsemi Heilsustofnunar sem verður opin meðan á framkvæmdum stendur. Nýtt meðferðahús verður miðpunktur fyrir alla starfsemi Heilsustofnunar þ.m.t. fyrir heilsusamfélagið og fyrirbyggjandi starfsemi Heilsustofnunar. Undirbúningur vegna framkvæmda við nýtt meðferðahús er hafinn og áætlað er að framkvæmdir hefjist 2022.

Heilsulind laugar

3. Heilsudvalarstaður

Unnið er að undirbúningi þess að reisa heilsudvalarstað við hlið Heilsustofnunar með u.þ.b. 100 herbergjum og stórri heilsulind. Boðið verður upp á einstaklingsmiðaða þjónustu sem byggir á reynslu Heilsustofnunar. Þar að auki geta gestir fengið aðgang að viðbótarþjónustu á Heilsustofnun. Staðsetning heilsudvalarstaðarins mun gera gestum kleift að heimsækja perlur Suðurlands og njóta náttúru- og menningarlífs á svæðinu. Hönnun á dvalarstaðnum er enn á frumstigi en áætlað er að framkvæmdir hefjist árið 2025.

 

4. Heilsuefling og fyrirbyggjandi starfsemi

Hluti verkefnisins felur í sér að þróa áfram fyrirbyggjandi starfsemi Heilsustofnunar sem byggir m.a. á fræðslustarfi, námskeiðahaldi, ráðgjöf og fræðslu um leiðir til að bæta eigin heilsu. Þessi þróun er þegar hafin, en gert er ráð fyrir að nýjar þjónustulínur verði kynntar í náinni framtíð. Þar sem fyrirbyggjandi þjónusta er mikið til veitt á Heilsustofnun er ekki gert ráð fyrir nýjum byggingum í tengslum við þennan lið uppbyggingarinnar.

Nánari upplýsingar um verkefnið (á myndbandsformi) má sjá hér fyrir neðan.

video heilsustofnun health