Allt meðferðarstarf verði á einum stað
Við birtum hér viðtal við forstjóra Heilsustofnunar, Þóri Haraldsson, þann 14. janúar sl. í Morgunblaðinu.
Drög hafa verið lögð að byggingu nýrrar byggingar fyrir meðferðarstarf á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði og er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næsta ári. Er nú unnið að þarfagreiningu og útfærslu á ýmsum hugmyndum sem fyrir liggja. Í dag er meðferðarstarfið, það er læknastofur, sjúkraþjálfun, nuddaðstaða, líkamsrækt og fleira slíkt, í elstu húsum stofnunarinnar, sem reist voru fyrir nærri 70 árum og svara ekki kröfum dagsins í dag, Ráðgert er að reisa um 2.800 fermetra byggingu á tveimur hæðum og sameina faglega endurhæfingu, meðferð og fræðslu í einu húsi. Áætlaður kostnaður við framkvæmdir er 1,5 milljarðar króna.
Skipuleggja byggð með 80 þjónustuíbúðum
„Mikið hagræði felst í því að vera með allt meðferðarstarf okkar á sama stað og í byggingum sem henta,“ segir Þórir Haraldsson sem síðastliðið haust tók við sem forstjóri Heilsustofnunarinnar. Hann hafði þá í nítján ár verið lögmaður og stjórnandi hjá Íslenskri erfðagreiningu og frá 1995-2001 var hann aðstoðarmaður Ingibjargar Pálmadóttur, þáverandi heilbrigðisráðherra. Hann þekkir því til heilbrigðismála frá mörgum hliðum.
Jafnhliða byggingu nýs meðferðarhúss verða byggðar í grennd við heilsustofnunina þjónustuíbúðir fyrir fólk 55 ára og eldra. Allmargar slíkar hafa verið teknar í gagnið á undanförnum árum, en þær eru fyrir fólk sem kýs að búa þar sem góð heilbrigðisþjónusta, líkamsrækt, sundlaugar og fleira gott er nærri. Eftirspurn er eftir fleiri íbúðum á svæðinu. Nú skal því kalli svarað, enda styrkir slík byggð starfsemina heildstætt. Því er nú verið að skipuleggja byggð með um 80 íbúðum og mun fólk sem þar býr hafa aðgengi að aðstöðu og þjónustu á heilsustofnun. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við fyrstu íbúðirnar nú í sumar.
„Við höfum í þessum uppbyggingaráformum fundið mikinn velvilja Hveragerðisbæjar. Starfsemin hér skiptir allt samfélagið miklu máli, því hér vinna um 100 manns og þetta er einn stærsti vinnustaðurinn í bænum,“ segir Þórir.
Færri dvalargestir vegna smitvarna
Sóttvarnareglur vegna Covid hafa þýtt að starfsemi Heilsustofnunar hefur verið með öðru sniði en vanalega. Um hríð síðasta vor var hlé gert á starfseminni, en þegar hún hófst að nýju gilti að í meðferð væru 70-80 manns hið mesta, en ekki 120 eins og að jafnaði er. Þannig má uppfylla sett skilyrði um fjarlægðir og fjöldatakmörk, auk þess sem brýnt er fyrir gestum að halda sig sem mest inni á eða við stofnunina til að draga úr smithættu. Einnig er lokað á að utanaðkomandi geti sótt matstofu, sundlaug og fleira.
„Starfsfólk hefur staðið sig mjög vel í því að fylgja eftir smitvörnum; fylgir ábendingum um að hafa samband við sem fæsta og vera á verði fyrir einkennum sem kunna að koma upp,“ segir Þórir. „Einnig höfum gætt þess vel að dvalargestir finni ekki til veikinda sem líkjast Covid eða komi úr vafasömum aðstæðum. Vel er gætt að sóttvörnum, grímuskylda er í sameiginlegum rýmum og matsal skipt upp. Í hóptíma koma nú aðeins tuttugu manns hið mesta saman í einu. Þetta og fleira hefur – sjálfsagt í bland við heppni – skilað því að engin smit hafa komið upp hér á bæ. Við fjölgum gestum í meðferð hér eftir því sem sóttvarnareglur heimila, en höldum áfram að sýna fulla varúð og verja starfsemina fyrir smitum eins og við mögulega getum. “
Á ári hverju hafa dvalargestir á Heilsustofnun að jafnaði verið um 1.350, skv. samningi milli stofnunarinnar og Sjúkratrygginga Íslands sem greiðir stóran hluta af kostnaði hvers sem kemur. Langur biðlisti er eftir meðferð og þörfin eykst. Margir þurfa þjónustu til dæmis í kjölfar áfalla eða aðgerða, vegna stoðkerfisvanda, andlegra veikinda og kulnunar. Þá er líka ljóst, að sögn Þóris, að mikill þungi verður á heilbrigðiskerfinu næstu árin þegar þangað leitar fólk sem glímir við eftirköst Covid.
„Hingað hefur á síðustu mánuðum komið fólk sem er að safna sér saman eftir baráttu við kórónuveiruna,“ segir Þórir að lokum.
Sólarhringsdvöl mikilvæg
„Afleiðingarnar geta verið úthaldsleysi og síþreyta. Fólk með slík einkenni þarf mikla aðstoð til að komast aftur út í daglegt líf. Því er þá mikilvægt að geta komið í meðferð og einbeitt sér alveg að því að ná bata. Að geta verið hér í sólarhringsdvöl í kannski fjórar vikur, en ekki í dag- eða göngudeildarþjónustu, getur skipt sköpum um árangur af meðferðinni, rétt eins og var staðfest í könnun meðal gesta hér í desember síðastliðnum.“
Heilbrigt fæði og heit böð
Fagleg endurhæfing, þjálfun, fræðsla, heilbrigt fæði, heit böð, nudd og útivera. Þetta eru meginstefin í löngu gagnreyndu meðferðarstarfi á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Velta stofnunarinnar í ár verður um 1.450 milljónir kr. Í þann pott greiðir ríkið 936 millj. kr. Dvalargestir greiða hluta dvalarkostnaðar síns sjálfir en njóta þá oft tilstyrks frá til dæmis sjúkrasjóði stéttarfélaga, velferðarþjónustu sveitarfélaga eða öðrum eftir atvikum. „Það er umhugsunavert að ákveðinn hluti þeirra sem þurfa á þjónustu okkar að halda eru í vanda með að greiða fyrir meðferð, sem þó gerir þeim mögulegt að verða að nýju þátttakendur í samfélaginu. Að stöðu þess hóps þarf að huga sérstaklega,“ segir Þórir Haraldsson og að lokum:
„Fjármál heilbrigðisstofnana eru annars eilífðarverkefni, því alltaf eru að koma nýjar kröfur og viðmið eins og gerist í síbreytilegu samfélagi. Þeim opinberu fjármunum sem varið er til heilbrigðisþjónustu ber að ráðstafa af skynsemi og ráðdeild. Slík þjónusta er líka í boði hér í Hveragerði; læknisfræðileg endurhæfing sem hefur sannað gildi sitt og skilað góðum árangri fyrir dvalargesti og samfélagið allt.“