Greinilegur munur á fólki

Ólöf Waltersdóttir, deildarstjóri læknadeildar, segir það mikilvægt að skipta um umhverfi fyrir endurhæfingu. Ólöf hefur starfað á Heilsustofnun í 30 ár, þekkir starfsemina mjög vel og hittir alla dvalargesti.
„Þegar ég byrjaði voru eldri dvalargestir í meirihluta, en meðalaldur hefur lækkað verulega á síðustu árum,“ segir Ólöf. „Samhliða því hafa meðferðirnar breyst og okkar frábæra fagfólk er duglegt að sníða þær að þörfum einstaklinga.
Á öldrunarlínu er boðið upp á endurhæfingu fyrir fólk sem er 70 ára og eldra, hvort sem það er til að byggja sig upp eða til að geta búið lengur heima,“ segir Ólöf.
„Við erum mjög stolt af því að geta boðið líka upp á endurhæfingu fyrir fólk sem er ekki á vinnu-færum aldri og það er hagkvæmt fyrir samfélagið að eldri borgarar geti dvalið lengur heima.
Það er stór hluti af bataferlinu að skipta um umhverfi fyrir svona endurhæfingu,“ segir Ólöf. „Það skiptir oft miklu að koma sér út úr krefjandi heimilisaðstæðum og dvalargestir tala mikið um fallegu náttúruna hérna.
Mér finnst greinilegur munur á fólki fyrir og eftir meðferðina. Ég itti fólk við innskrift og útskrift og sé mikinn bata. Það eru allir mjög ánægðir hérna og ná miklum árangri,“ segir Ólöf. „Það tala líka margir um hvað starfsfólkið hér er gott, eins og ein stór samheldin fjölskylda í notalegu umhverfi.
Fólk nærist líka svo mikið félagslega, sem hefur einnig jákvæð áhrif á endurhæfinguna. Hér verða til mjög sterkir vina hópar sem halda sambandi lengi eftir að dvölinni hér lýkur,“ segir Ólöf.
Í lokin er hér falleg vísa frá dvalargesti:
Hér er góður andi inni
örvast blóð er hlýnar þel.
Íslands þjóðin þarna finni
þrek og móð er dugar vel.
Höf.: K.Á.