Starfsemin komin í gang eftir stutt hlé
20. ágúst 2021
Starfsemi Heilsustofnunar er komin af stað aftur eftir tveggja daga meðferðahlé á meðan unnið var að smitrakningu. Það verkefni gekk vel og endurhæfingarstarf hófst aftur fimmtudaginn 19. ágúst. 52 eru nú í sóttkví vegna þess.
Tilkynning barst í morgun frá smitrakningateymi ríkislögreglustjóra um annað smit sem er óskylt hinu fyrra. Unnið er að smitrakningu en ekki er talin þörf á að gera hlé á starfseminni.
Við þurfum að viðhafa strangar sóttvarnir á Heilsustofnun. Við biðjum alla, starfsfólk, dvalargesti og aðra gesti að fara sérlega varlega í allri umgengni og ekki koma inn á stofnunina ef þeir eru með einhver flensulík einkenni, hita, slappleika eða hósta af hvaða orsökum sem er.
Væntanlegir dvalargestir þurfa að vera fullbólusettir áður en þeir koma í dvöl. Allir starfsmenn okkar eru fullbólusettir.
Gæta þarf sérstaklega vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum, góðum handþvotti, sprittun og 1 metra fjarlægð. Vel er hugað að sótthreinsandi þrifum á stofnuninni og sérstaklega hvað varðar almenna snertifleti. Sprittstandar og -brúsar eru víða um húsið.
Allir þurfa að spritta hendur áður en farið er í matsal og tækjasal og einnig á eftir. Einnig er mikilvægt að spritta hendur fyrir og eftir spil og dagblaðalestur og gæta sín á öðrum sameiginlegum snertiflötum t.d. hurðarhúnum.
Við biðjum dvalargesti um að halda kyrru fyrir á stofnuninni eins og kostur er. Heimsóknir eru einungis leyfðar í sérstökum tilfellum og takmarkast við fullbólusetta gesti.
Grímuskylda er nú á Heilsustofnun.
Dvalargestir þurfa að láta hjúkrunarvakt strax vita ef þeir veikjast eða finna fyrir flensulíkum einkennum. Ef minnsti grunur er um COVID-19 fer viðkomandi í sýnatöku og er beðinn um að bíða svars heima ef kostur er. Dvalargestir með önnur smitandi veikindi, svo sem hita eða hósta, mega ekki taka þátt í neinum tímum eða meðferðum meðan á veikindum stendur. Þeim stendur til boða að fara heim og fresta dvöl.