Heilsustofnun vann nýverið til nýsköpunarverðlauna Heilsulindarsamtaka Evrópu (ESPA) vegna námskeiða þar sem gjörhygli/núvitund og streitustjórnun er nýtt, meðal annars í verkjameðferð.
Verðlaunin eru veitt heilsulindum fyrir nýsköpun sem skilar sér í betri upplifun og árangursríkara starfi á öllum sviðum heilbrigðistengdar þjónustu, hvort sem um er að ræða meðferðir, rekstur eða markaðssetningu. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Sopot í Póllandi fimmtudaginn 21.maí 2015.

espa innovation awards

 ESPA (European Spas Association) eru samtök heilsulinda og heilsumiðstöðva í Evrópu sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni. Aðalfundur samtakanna fór fram í Sopot í Póllandi dagana 20 og 21. maí. Á aðalfundinum voru veitt verðlaun fyrir nýsköpun í sex flokkum. Heilsustofnun vann í flokknum ”Innovative Health Spa Program”


„Heilsustofnun hefur verið leiðandi í meðferðum þar sem áhersla er lögð á endurhæfingu, heilsusamlega lifnaðarhætti og forvarnir“ segir Margrét Grímsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsustofnun. „Að vera valin úr stórum hópi umsækjanda og vekja þar með alþjóðlega athygli á því einstaka starfi sem fer fram á Heilsustofnun er gríðarlega mikil viðurkenning fyrir okkur. Þetta er í annað sinn sem við vinnum til þessara verðlauna og það að sjálfsögðu vakti athygli. Í þetta sinn unnum við í öðrum flokki en síðast sem sýnir hversu fjölbreytt þjónustan er sem við erum að veita. Vonandi verður þetta til þess að við eflum stöðu okkar sem fyrimynd á alþjóða heilbrigðisvettvangi". Meðfylgjandi er ljósmynd af Margréti Grímsdóttur framkvæmdastjóra hjúkrunar á Heilsustofnun með verðlaunin að lokinni afhendingu þeirra í Sopot.