Margrét Grímsdóttir er framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsustofnun NLFÍ. Þar er boðið upp á 4 vikna streitumeðferð sem Margrét stýrir. Hún segir aðsókn á þetta námskeið vera í stöðugri sókn, enda sé streita að aukast í samfélaginu með aukinni þenslu í hagkerfinu. Elínrós Líndal, blaðamaður tók við hana viðtal sem birtist þann 24. ágúst í sérblaði um heilsuna.

Það er ekki einungis fólk sem er að upplifa kulnun í starfi sem kemur til okkar, heldur einnig fólk sem er að upplifa kulnun í lífinu. Er búið að koma sér upp leiðum til að lifa af í stað þess að njóta lífsins og hafa tök á því sem gerist yfir daginn. Þegar það kemur hingað kemst það út úr öllum þeim munstrum sem það er í daglega. Fær tækifæri til að vera úti í náttúrunni, borða hollan mat og vinna úr því sem það þarf að vinna úr hverju sinni.“

Í streitumeðferð eru lokaðir hópar með 12-16 dvalargestum. Kennt er í fjórar vikur í senn, átta skipti í tvo samfellda tíma. Gert er ráð fyrir því að þátttakendur vinni heimaæfingar á milli tímanna og boðið er upp á einkaviðtöl á námskeiðinu.

Neikvæðar hugsanir eitt einkenna streitu

Hver eru helstu einkenni þeirra sem leita til ykkar í streitumeðferðina?

„Líkamleg einkenni eru spennuhöfuðverkur, vöðvabólga, verkir í líkama, svefntruflanir, kvíði, reiði, þunglyndi, neikvæðar hugsanir, allt eða ekkert hugsanir og gremja, svo eitthvað sé nefnt. Margir af þeim sem leita til okkar eru búnir að týna neistanum, eru með stuttan þráð og tala um að vera búnir að týna sér. Margir tala um félagslega einangrun, þar sem þeir eru hættir að hafa þrek til að umgangast fólk og staði sem það er vant að vera á. Þeir forðast mannamót, afmæli og fleira í þeim dúrnum af því að þeir hafa einfaldlega ekki líkamlega eða andlega heilsu til þess að mæta þangað lengur. Þetta er dæmigert en alls ekki allur listinn yfir það sem  einkennir þá sem koma. Eins eru líkamlegu einkennin, hækkaður blóðþrýstingur, kviðverkir, sviti, innri skjálfti, bakverkir og fleira í þeim dúrnum.“

Hver er nálgun ykkar í þessari meðferð?

„Við vinnum mjög heildrænt með einstaklingum. Bjóðum upp á mikið af fræðsluefni og skoðum streituvalda sem og streitueinkenni. Við tölum um leiðir til að vinna úr streitu, tölum um sjálfsmyndina og hlutverk sjálfstrausts í þessu samhengi.“

Mikilvægt að setja mörk.

Hvaða hlutverk spilar það að setja mörk inn í þessa vinnu?

„Það að kunna að setja mörk í lífinu spilar stórt hlutverk í því að við getum viðhaldið þeim bata sem við öðlumst á námskeiðinu. Þess vegna tölum við mikið um  meðvirkni, mörk og markaleysi. Við veltum því upp hvar við eigum erfitt með að setja mörk og fleira í þeim dúrnum. Þessi sjálfsvinna, ásamt því að vera úti í náttúrunni og að nota þannig hreyfingu eins og göngur, líkamsrækt og sund, er sú heildræna vinna sem við höfum trú á að komi fólki út úr kulnun og alvarlegu streituástandi.“

Margrét trúir af fullum hug á það að taka einstaklinginn út úr öllum mynstrum og úr sínu náttúrulega umhverfi til að endurforrita hugmyndakerfið og næra nýja jákvæða hugsun um lífið, það sjálft og tilveruna. Hún segir streitu og kulnun algengari hjá konum sem leita til þeirra, enda séu þær 70% af þátttakendum á námskeiðinu. Aldur þeirra sem sækja Heilsustofnun í þessa meðferð er frá 45 ára og upp í 70 ára.

Hvað er helst að koma upp í þessari vinnu?

„Gömul áföll, undirliggjandi tilfinningar sem þurfa að koma fram. Ekkert af okkur í þessu lífi að mínu mati er með allt í lífinu sem er frábært. Við erum öll með okkar sögu og sumu úr henni þurfum við að vinna úr. Þeir sem hafa ekki unnið úr sínum málum eða tekist á við verkefnin sem þeim hefur verið úthlutað geta farið á vondan stað. Þar komum m.a. við inn með lausn sem hefur virkað vel fyrir marga.“ Allt starfsfólk stofnunarinnar sem kemur að þessari meðferð er fagfólk, svo sem læknar, hjúkrunarfólk, sjúkraþjálfarar, næringarfræðingar, sálfræðingar og áfram mætti telja. Stofnunin notar sem dæmi aðferðir núvitundar og hugræna atferlismeðferð ásamt lausnamiðuðum meðferðum, út frá kenningum um tengsl og fleira. Öll meðferð er einstaklingsmiðuð til þess að hver og einn fái það sem hann þarf á þessum tíma.

Getur þú sagt mér dæmigerða sögu fyrir aðila sem leitar til ykkar svo að fólk geti tengt hvort það eigi erindi til ykkar?

„Já, ég get tekið dæmi sem er tilbúið en ég hef oft heyrt. Kona sem er 50 ára, á aldraða móður, börn og barnabörn. Hún er í fullu starfi, það eru að koma upp verkefni í hjónabandinu, hún er að lenda í árekstri í vinnu og henni finnst eins og hún sé að missa alla boltana. Af þessum sökum er hún að fara í lægð, hún er komin með kvíða og hefur upplifað streitu í langan tíma. Hún er stöðugt með fókusinn í lífinu á aðra en sig og er sjálfstraustið hennar að molna. Þegar hún kemur til okkar í fjórar  vikur byrjum við að vinna með sjálfsmyndina. Við spyrjum hvað er að gerast hjá henni, hvað hefur breyst, hvernig hún bakkar út úr lífinu, ver sig og lifir af. Við skoðum hvernig hún setur mörk eða hvort hún geri það yfir höfuð einhvern tímann. Við spyrjum hvort hún setji sig í forgang og veltum upp af hverju hún gerir það ekki.
Síðan skoðum við hvernig hún deyfir tilfinningar sínar, er hún að drekka eitt hvítvínsglas að kveldi? Borðar hún yfir tilfinningar og þar fram eftir götunum. Tekur hún
svefntöflur til að geta sofið? Síðan byrjum við að sortera, raða og forgangsraða svo hún geti verið til staðar fyrst fyrir sig og svo fyrir aðra. Þessi andlegi stuðningur og skilningur sem hún fær hér er upphafið að því að breyta í kærleika. Eins er mikilvægi þess að borða reglulega og að borða hollt svo samofið öllu hér að maður kemst upp á lagið með góðar venjur áður en maður veit af.“

Að lokum vill Margrét skerpa á því hvað það er magnað að upplifa breytingar í lífi fólk á þessum tíma. „Við erum ekki að leita eftir stórum kraftaverkum, en litlar breytingar sem gerast jafnt og þétt yfir lengri tíma enda á því að skapa verulega gott líf fyrir þá sem finna kraftinn til að fara út í lífið og halda áfram þeirri vinnu sem  þeir hófu með okkur. Samfélagið sem við búum í er pínulítið geggjað, það að fá endurforritun hjá okkur og afstillingu í átt að auknu heilbrigði getur skipt sköpum í lífi fólks.“