Sjúkraþjálfun á Heilsustofnun er einstaklingsmiðuð. Ástand sjúklings er metið við komu og aftur við lok dvalar og áætlun gerð um framhaldið. Meðferð er alltaf ákveðin í samráði við sjúklinginn.
Þegar læknir hefur metið sem svo að sjúklingur þurfi á sjúkraþjálfun að halda þá fær hann tíma hjá okkur. Við förum yfir sögu hans, fram-kvæmum skoðun og út frá því er metið hvers kyns þjálfun hentar viðkomandi best, að sögn Steinu Ólafsdóttur yfirsjúkraþjálfara hjá Heilsustofnun.
„Sjúklingur fær netta yfirheyrslu um allt milli himins og jarðar. Hvað hann hefur verið að bauka í gengum tíðina, hvernig hreyfingu hann hefur stundað, hvers konar meðferð hann hefur fengið, hvað hefur virkað og slíkt. Við beitum ýmsum aðferðum til að komast að hvaða vandamál hrjáir sjúklinginn. Oft eru spurningalistar lagðir fyrir fólk til að greina vandamálin betur og út frá því er meðferð ákvörðuð.“ útskýrir Steina.
„Ef við álítum að við þurfum að gera einhver próf þá gerum við það, ef viðkomandi er eitthvað stirður þá mælum við hreyfiút-slag. Við mælum getu eins og til dæmis hversu oft viðkomandi getur staðið upp og sest niður eða hversu langt hann kemst á ákveðnum tíma sem eru dæmi um starfræn próf. Ef verkir eru aðalvandamálið þá biðjum við viðkomandi oft að teikna inn á sársaukamynd. Viðkomandi merkir þá inn á skema hvar verkir eru mestir og gefur þeim tölugildi. Þá vitum við hvar hann finnur mest til og meðferðin beinist að þeim stað.“
Steina segir að meðferð sé alltaf ákveðin í samráði við sjúklinginn.
„Okkur finnst kannski eitt-hvert eitt vandamál vera stærra en annað, en ef sjúklingurinn er ósammála því og finnst eitthvað annað mikilvægara, þá er það málið sem við tökum fyrir. Ef sjúklingurinn er með í ferlinu þá gengur allt mun betur.“
Fjölbreytt meðferð
Meðferðin sem er beitt getur verið fjölbreytt. Steina segir að hún geti verið fólgin í einhverju sem sjúkra-þjálfarar gera með höndunum eða með ýmiss konar tækjum. Eins eru sértækar æfingar mikið notaðar sem miðast við að bæta ástandið.
„Við getum notað rafmagn, juðara, stuttbylgjur, laser og ýmis-legt annað til að draga úr verkjum. Einnig erum við með tækjasal og sundlaug þar sem við látum fólk gera æfingar. Við hittum fólk kannski tvisvar, þrisvar í viku eða jafnvel bara einu sinni í viku og svo fær það yfirleitt eitthvert hreyfiprógramm til að fara eftir þess á milli. Það geta verið ein-hverjar æfingar eða einfaldlega að fara út að labba. Við fylgjumst með árangrinum og breytum um aðferð ef okkur finnst við þurfa þess. Þetta er lifandi meðferð og í sífelldri þróun og endurskoðun,“ útskýrir Steina.
„Þegar kemur að útskrift könnum við hvernig ástandið er og berum það saman við upp-hafið. Sjúklingurinn fær tillögu um hvernig skal halda áfram eftir útskrift, mjög gjarnan heimaæfingar, en stundum ráðleggjum við áframhaldandi sjúkraþjálfun á heimaslóðum. Við reynum að beina fólki í þann farveg sem það kann að meta, við rekum ekki fólk í laugina sem hatar sund, eða í ræktina ef það þolir hana ekki. Við reynum að finna einhvern grundvöll þar sem viðkomandi getur notið sín. Við erum auðvitað ekkert nema vegvísar hér. Slagorð staðarins er að bera ábyrgð á eigin heilsu þannig að við reynum að virkja fólk sem mest til sjálfshjálpar.“