Skilaboð vegna Covid-19   Nánari upplýsingar
 

Í gær var tilkynnt að Heilsustofnun er stofnun ársins í könnun Sameykis.

Heilsustofnun var efst í stærsta flokknum; Ríkisstofnanir og sjálfseignarstofnanir með 90 starfsmenn eða fleiri með 4,32 í einkunn.

Þessi niðurstaða er afskaplega ánægjuleg fyrir okkur öll, - þetta er niðurstaða úr könnun meðal allra starfsmanna – þetta er ykkar sigur og mjög ánægjulegur fyrir okkur öll.

Valið á Stofnun ársins 2021 var tilkynnt á hátíð Sameykis 16. mars 2022 en titlana Stofnun ársins og Stofnun ársins - borg og bær hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr í þeim þáttum sem könnun Sameykis náði yfir að mati starfsmanna þeirra.

Könnunin náði til um 31 þúsund starfsmanna í opinberri þjónustu, bæði hjá ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélögunum og sjálfseignarstofnunum. Könnunin er unnin í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Mannauðsdeildar Reykjavíkurborgar og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á opinbera vinnumarkaðnum. Í henni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e.:

  • trúverðugleika stjórnenda
  • starfsanda
  • launakjör
  • vinnuskilyrði
  • sveigjanleika í starfi
  • sjálfstæði í starfi
  • ímynd stofnunar
  • ánægju og stolt og jafnrétti.

Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur stofnana til að huga að mannauðsmálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum. Alls fengust gild svör frá rúmlega 13.300 starfsmönnum og svarhlutfallið var 43 prósent.