Staðfest er að fjárveiting til Heilsustofnunar sé innan við helmingur af því sem aðrir fá fyrir sambærilega þjónustu.

Á 70 ára afmælisári Heilsustofnunar blasa við erfiðar áskoranir. Heilsustofnun hefur frá upphafi verið hornsteinn í heilsueflingu og endurhæfingu, veitt öfluga heilbrigðisþjónustu og oft verið í fararbroddi nýjunga og nýsköpunar. Jónas Kristjánsson, stofnandi og frumkvöðull, lagði allar eigur sínar í uppbyggingu Heilsustofnunar og Náttúrulækningafélag Íslands hefur fjármagnað húsnæði og aðstöðu en aldrei hefur komið framlag frá ríkinu til uppbyggingar.

Heilsustofnun var ein fyrsta stofnunin sem gerði ítarlegan þjónustusamning við ríkið um veitingu endurhæfingarþjónustu árið 1991. Sá samningur hefur verið endurnýjaður og uppfærður á u.þ.b. 5 ára fresti, síðast árið 2019. Heilsustofun hefur alla tíð uppfyllt öll ákvæði samningsins, þjónað um 1.350 einstaklingum á ári, verið til fyrirmyndar (að sögn SÍ) í veitingu upplýsinga og hefur skilað marktækum mælingum um mikinn árangur sjúklinga af þjónustunni.

Hálfdrættingur, misrétti í fjárveitingum staðfest

Þrátt fyrir þetta hefur Heilsustofnun ekki notið sannmælis í greiðslum fyrir þjónustu sína og þannig hefur að okkar mati verið gróflega brotið gegn jafnræði. Þetta misrétti hefur verið staðfest af opinberum aðilum, þ.e. forstjóra Sjúkratrygginga Íslands sem skrifaði í bréf til heilbrigðisráðherra 28. nóvember 2016:

      „Samanburður leiðir í ljós að fjárveiting ríkisins á hvern meðferðartíma í þverfaglegri endurhæfingu er ríflega tvöfalt hærri til Reykjalundar en til Heilsustofnunar.“

Þetta var staðfest í sjálfstæðri skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis 2018, bls. 28:

     „Samkvæmt samanburði Sjúkratrygginga var framlag ríkisins á hvern meðferðartíma í þverfaglegri endurhæfingu ríflega tvöfalt hærra til Reykjalundar en til sambærilegrar þjónustu hjá Heilsustofnun …“

Þetta er óbreytt, eftir ítarlega skoðun komst SÍ að þeirri niðurstöðu í apríl sl. að Heilsustofnun væri vanfjármögnuð bæði að því er varðar þjónustu og viðhald húsnæðis og lagði til að framlög yrðu hækkuð.

Þannig hafa opinberir aðilar staðfest misréttið. Ofan á þetta verða sjúklingar á Heilsustofnun fyrir hrópandi misrétti því þeir þurfa að greiða allt að 250 m.kr. á ári fyrir meðferðarkostnað, til viðbótar við greiðslu fyrir fæði og gistingu, sem ekki þarf í endurhæfingu annars staðar á heilbrigðisstofnunum, s.s. á Reykjalundi eða í Kristnesi.

Þessi vanfjármögnun hefur leitt til þess að Heilsustofnun hefur setið eftir á mörgum sviðum, okkar 100 starfsmenn hafa sífellt þurft að hlaupa hraðar og skila meiri vinnu til að sjúklingar fái bestu mögulegu þjónustu, fagleg framþróun, gæðastarf og nýjungar hefur setið á hakanum sem ógnar framtíðartilvist þjónustunnar. Þá hefur ekki verið hægt að sinna nauðsynlegu viðhaldi og endurnýjun á þeim 12 þúsund fermetrum af húsnæði sem Heilsustofnun starfar í en brýn þörf er á endurnýjun elsta hluta húsnæðisins sem er byggt á árdögum stofnunarinnar um 1955.

Heilsustofnun hefur setið eftir

Á sama tíma og greiðslur hafa staðið í stað til Heilsustofnunar, reyndar dregist saman með „flötum niðurskurði“, hafa ný úrræði í endurhæfingu fengið fjárveitingar og meðal annars hafa framlög til sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara hækkað um 44% á fjórum árum á meðan sjúklingum í meðferð hjá þeim hefur fjölgað um 17,6%. Heilsustofnun fagnar því að aukinn skilningur og áhersla er á endurhæfingu, enda er hagkvæmni hennar óvíræð fyrir sjúklinga, aðstandendur og samfélagið í heild. Auknu fjármagni hefur hins vegar verið varið til annarra meðferðarúrræða en Heilsustofnun hefur setið eftir og það vekur vissulega áleitnar spurningar.

Með sama áframhaldi mun þjónusta Heilsustofnunar einfaldlega leggjast niður í núverandi mynd. Það væri mikið samfélagslegt tjón því starfsfólk Heilsustofnunar hefur skilað frábæru starfi, sjúklingar hafa náð miklum bata, Heilsustofnun hefur alltaf uppfyllt allar sínar skyldur samkvæmt samningum, skilað öllum upplýsingum og ábyrgum rekstri.

Von um jafnræði

Heilsustofnun fagnar áherslu heilbrigðisráðherra á mikilvægi endurhæfingar og nú er unnið að stefnumótun í endurhæfingu undir forystu ráðherra. Stofnunin getur samt ekki beðið lengur eftir að njóta jafnræðis í framlögum.

Heilbrigðisráðherra hafnaði í september tillögu SÍ um hækkun framlaga til Heilsustofnunar en sagði í ræðu á Alþingi 22. september sl. að unnið væri að því að fara yfir málefni Heilsustofnunar og sagði orðrétt: „Þeir hafa ekki fengið greitt eins og þeir ættu að fá.“

Heilsustofnun fagnar þessari yfirlýsingu ráðherra og minnir á að SÍ og Ríkisendurskoðun hafa staðfest að Heilsustofnun hafi fengið innan við helming af þeim greiðslum sem aðrir aðilar hafa fengið fyrir sambærilega þjónustu. Til þess að Heilsustofnun njóti jafnræðis hljóta greiðslur hennar því að verða jafnaðar við aðra og við starfsfólk bíðum spennt eftir að sjá tillögur um það í afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Þingmenn Suðurkjördæmis, bæjarstjórn Hveragerðis og aðrir velunnarar leggjast á þessar árar með okkur og við hljótum að búast við því að jafnræði verði tryggt.

Þórir Haraldsson, forstjóri Heilsustofnunar.