Heilsustofnun er lokuð fyrir almenning vegna kórónuveirufaraldursins.   Nánari upplýsingar
 

Þorsteinn Hallgrímsson er einn af þeim sem hafa greinst með COVID-19 sjúkdóminn. Síðan þá hefur hann glímt við alvarleg eftirköst.

Ég greindist í lok mars. Inga konan mín og 19 ára sonur okkar greindust á svipuðum tíma. Hann jafnaði sig fljótt og Inga hefur endurheimt um 80-90% af heilsu. Sjálfur var ég ekki svo heppinn.“ Einkenni Þorsteins voru ódæmigerð sem varð til þess að hann greindist seinna. „Ég þjáðist af magakrampa og hélt engu niðri. Kona mín minntist á þetta í eftirlitssamtali og eftir að hjúkrunarfræðingur skoðaði mig var ég lagður inn og loks greindur.“

Þorsteinn var í einangrun í fimm vikur og sótti í sumar um að fara inn á Reykjalund. Þar sem biðin eftir innlögn var löng stakk Inga, sem er lærður sjúkraþjálfari, upp á því að, að Þorsteinn færi á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. „Ég viðurkenni að ég hafði mikla fordóma. Á svona Heilsustofnun færu eingöngu gamalmenni og ég var ekki nema fimmtugur. En ég gæti ekki hafa haft meira rangt fyrir mér. Ég hafði verið með höfuðverk í sex vikur og hann hvarf eftir tvær vikur í Hveragerði. Eftir fjórar vikur af tímum hjá sjúkraþjálfara, nálastungum, núvitundarfyrirlestrum, leirböðum og fleiri meðferðum fann ég að ég var á bataleið. Það hjálpaði líka að viðmótið frá öllu starfsfólki þarna er fyrsta flokks. Mér líður vel í hjartanu að hugsa til baka og veit að ég á hiklaust eftir að fara aftur, vonandi ekki svona veikur heldur bara til þess að núllstilla mig.“thorst

Eftir fjórar vikur á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði segist Þorsteinn Hallgrímsson þakklátur fyrir alla litlu sigrana. Hann sé á hægum batavegi, en batavegi engu að síður.

200 orkuboltar

„Í dag er ég langt frá því að vera með fulla orku. Lyktaskyn og bragðskyn er nánast ekkert. Orkan er misjöfn dag frá degi. Ég hef ekkert unnið síðan í september. Stundum líður mér eins og að ég gæti vel farið í vinnu. Aðra daga er það útilokað. Í Hveragerði lærði ég að maður hefur bara takmarkaða orku. Heilbrigð manneskja byrjar daginn með 1.000 orkubolta sem hún deilir á milli til dæmis líkamsræktar, vinnu, gönguferðar, garðvinnu og fjölskyldunnar. En hvað gerir maður sem hefur bara 200 orkubolta í upphafi dags? Það er mikilvægt fyrir minn bata að halda áfram núvitundaræfingum og fara í göngur en það er viss áskorun að hætta göngu eftir tvo kílómetra. Því ég veit að ef ég fer lengra þá fæ ég það í hausinn daginn eftir. Þetta eru ekki stórir sigrar, en þetta eru sigrar.“